Við getum verið mjög yfirveguð, öguð í framkomu og full af sjálfstrausti og haft góða stjórn á skapi okkar og tilfinningum, þar til ..... einhver ýtir á takkana okkar, þessa viðkvæmu!
Það er oft sama fólkið sem kann best á takkana okkar, og hver ætli það sé? -
Yfirleitt eru það okkar nánustu, það er fjölskyldan - nú eða maki til margra ára. Af hverju er það? - spurði Oprah Winfrey Elisabeth Gilbert, rithöfund.
Svarið var: "Af því að þau komu þessum tökkum fyrir" - Þau eru s.s. með meira próf á okkar stjórnborð, - og geta því auðveldlega hitt beint á rauðu takkana, þessa ofurviðkvæmu sem setja okkur út af laginu, - við missum "kúlið" og allt sem við lærðum á sjálfstyrkingar-eða meðvirkninámskeiðinu, öll vitneskjan hverfur eins og dögg fyrir sólu. Við bregðumst bara við, eins og ósjálfrátt í takt við takkana sem notaðir eru.
Þetta fólk gerir það kannski ekki viljandi, en við erum s.s. ofurviðkvæm fyrir því. - Við hleyptum þessu fólki inn, fyrst höfðum við ekki val, þ.e.a.s. gagnvart foreldrum og systkinum til dæmis, - þeims sem voru í lífi okkar sem börn. Gætu líka verið fleiri í fjölskyldunni, og/eða kennarar. Þau sem höfðu í raun "aðgang" að stjórnkerfi okkar. - Svo á unglingsaldri, - þegar við förum að verða ástfangin og hleypum viljandi einhverjum inn, til að fikta í stjórnkerfinu, nú eða óviljandi, við bara opnum hjartað því að það gerum við þegar við hleypum einhverjum að okkur.
Stundum hitta ókunnir "óvart" á okkar viðkvæmustu takka, - eða það verður einhvers konar yfirfærsla frá þeim sem settu þá inn yfir á þetta ókunnuga fólk. Við dettum í gírinn að vera eins og barnið, og upplifum viðbrögð barns við þessu fólki sem meiðir eða særir.
Það er ábyrgðarhluti að koma inn í líf annars aðila og fara að "fikta" í hans eða hennar stjórnborði. - Það má kannski segja að við séum að taka ákveðna takka úr sambandi, þegar við erum að "fyrirgefa" - "sleppa tökunum" - og svoleiðis. Við föttum oft ekki að það er fyrir okkur sjálf. - Við erum að aftengja til að aðrir hafi ekki stjórn á okkar lífi. - Það er nefnilega hægt, en bara ef VIÐ viljum það og föttum hvernig t.d. fyrirgefningin virkar.
Málið er kannski að við verðum að skilja hvernig við virkum, - taka stjórn og hafa valdið. Ekki gera annað fólk að stjórnendum sem geta teygt höndina inn fyrir, - og "kabúmm" - sprengt okkur tilfinningalega.
Það er erfiðast að eiga við takkana frá bernsku og svo úr löngum ástarsamböndum, því takkarnir eru oft orðnir vel fastir og vel "ígræddir" - þræðirnir margir.
Nú fer í hönd mikil fjölskylduhátíð - það eru margir sem hlakka til, en sumir hreinlega kvíða fyrir að vera mikið með fjölskyldunni, því það rifjast oft upp samskiptin sem kannski voru ekki til fyrirmyndar. Einhver gerir lítið úr öðrum, ýtir á viðkvæma takka o.s.frv. -
Munkur nokkur sagði: "Okkur ber að elska alla í þessum heimi, en sumt fólk er betra að elska úr fjarlægð." -
Það er yndislegt að lifa berskjölduð og opin, í hamingjusömu sambandi við okkur sjálf og með þeim sem við getum treyst fyrir sjálfum okkur og "stjórnborðinu" okkar. - En það getur reynt á að vera í kringum þau sem misnota þessa opnun og einlægni, - sem brjóta á traustinu og ýta kannski ítrekað á okkar viðkvæmustu og aumustu takka, það er kannski þá sem við förum að reyna að læsa og loka, og ákveðum að hleypa engum að, þegar við vitum ekki lengur hverjum er treystandi? -